top of page
raggaakranes.jpeg

Viltu bæta þig?
Þá þarftu að taka fyrsta skrefið!

Ég get hjálpað þér!

Teygja - Snúa - Skvetta

Einfaldleiki er lykillinn.

Í september árið 2017 hlotnaðist mér sá heiður að vera kylfusveinn í móti á Marbella hjá henni Valdísi Þóru vinkonu minni. Á þessum tíma var golfið mitt ekki búið að vera ofarlega á forgangslista og ég var farin að slá styttra en ég hafði verið að gera og löngu járnin mín voru hálfleiðinleg við mig. Ég hélt sannast sagna að ég þyrfti bara að sætta mig við þetta því ég væri að eldast. Hvorki jafn sterk né liðug eins og ég var þegar ég var upp á mitt besta. Forgjöfin var í kringum 2 en ég náði þó nokkurnveginn að halda mér á því róli. Í Mótinu, OPEN DE ESPANA, spilaði Valdís fyrstu 2 dagana með stúlku frá Frakklandi sem heitir Jade Schaeffer Calmels. Í stuttu máli sagt hafði hún svo mikil áhrif á mig að ég ákvað að sætta mig ekki við það að láta sveifluna mína eldast. Sveiflan hennar Jade er svo áreynslulaus, einföld og laus við flækjustig að unun er að hofa á. Grunnatriði upp á 10 og þegar maður horfir á hana þá langar mann að gera eins. Eftir hring tvö í OPEN DE ESPANA 22. september 2017 sagði ég við sjálfa mig: ,, Ragnhildur Sigurðardóttir! Nú ferð þú að æfa þig. Ég hélt heim á leið(til Costa Ballena) eftir kaddýstörfin og milli vinnustunda fór ég á æfingasvæðið og æfði frönsku sveifluna mína(eins og Siggi P og Maggi Birgis vinir mínir kölluðu hana). Mikil vídd - stutt handasveifla - góður snúningur á líkamanum - kraftlosun á hárréttu augnabliki og geggjað jafnvægi í lokastöðu. Jade var alltaf með hatt og hatturinn haggaðist ekki á höfðinu á henni í drævunum. Ég fór að hugsa grunnhreyfingarnar mínar upp á nýtt. Ég vissi að sveiflan mín var stundum of löng, sérstaklega með lengri kylfunum. Vídd á leiðinni aftur var mjög áberandi hjá Jade og kraftlosunin í Höggstöðunni(impact). Ég vissi að ág þyrfti að passa vel upp á grip og stöðu, sérstaklega vel núna þar hreyfingarnar sem ég sóttist eftir yrðu aldrei eins góðar ef ég héldi of fast og jafnvægi væri ekki í lagi. Nánast samdægurs fór ég að geta slegið högg sem ég hafði ekki séð í langan tíma. Ég lagði töluvert upp úr því að strekkja á mér í aftursveiflunni til þess að búa til togkraft og minnka líkurnar á kasti. Inn á milli komu léleg högg en lélegu höggin voru mun betri en áður. Ég hélt áfram að vinna í þessu og smátt og smátt fór golfið mitt að taka stakkaskiptum. Rúmum þremur árum eftir að ég byrjaði í þessarri vinnu var forgjöfin komin í +2 og ég náði að bæta mitt persónulega met hvað forgjöfina varðar. En ég hafði náð best +1,8 þegar ég var upp á mitt besta. Stór hluti ástæðunnar er sú að ég er farin að slá lengra og ég (hjartasjúklingurinn á sextugsaldri) fór að slá teighögg sem voru sum hver lengri en ég hef nokkru sinni slegið á öllum mínum ferli(er með tæplega 40 ára viðmið á völlum Golfklúbbs Reykjavíkur). Árið 20223 átti ég svo minn besta hring á ævinni 64 högg sem ég náði aldrei þegar ég var upp á mitt besta(líkamlega). Stuttaspilið er alltaf nokkuð gott hjá mér en högglengdin gerir leikinn enn léttari. Ernir litu reglulega dagsins ljós og mikið var um fugla. Þegar ég fann hvað nýr og ferskur hugsunarháttur gerði fyrir mig, þá fór ég að nota sömu brögð í golfkennslunni minni. Ég fór að sjá árangur fyrr og högglengd hjá nemendum mínum tók líka stakkaskiptum. Þetta er ástæðan fyrir því að ég er farin að kenna öllum mínum nemendum að TEYGJA - SNÚA og SKVETTA. Þegar ég teygi mig(með vinstri) í glas á hillu í axlarhæð í aftursveiflunni þá er ég að búa til togkraft ásamt því að sjá til þess að efri partur líkamans snúi upp á sig eins og við viljum að hann geri í aftursveiflunni. Þegar ég sný(á leiðinni fram) er ég að virkja undirvagninn(fæturnar og mjaðmirnar) til þess bæði að hreinsa frá og draga hendur og kylfu í gegnum boltann. Þegar ég skvetti er kylfan að gefa í í gegnum höggstöðuna og ég á mun auðveldara með að taka boltann út úr formúlunni... hann verður á vegi kylfuhaussins í högginu. Léleg lega - hættur og hindranir - áhorfendur fara að skipta mun minna máli en áður... Sem sagt óttalausi kylfingurinn er í æfingabúðum og bara svo að þið vitið það, þá er óttalausi kylfingurinn mun betri kylfingur en hinir ❤ Þessi einfalda hugsun hjálpar okkur að framkalla tæknilega flóknar hreyfingar án þess að þurfa að hugsa um tæknilega flókin atriði.... TEYGJA sig í glas..... SNÚA(enda með læri að læri í fullkomnu jafnvægi)...... og SKVETTA úr glasinu í leiðinni.... Miðjan(hryggsúlan) er svo það sem allt hverfist um. Hlakka til að kenna ykkur að TEYGJA - SNÚA og SKVETTA ❤ Hér meðfylgjandi eru nokkur dæmi um það kennsluefni sem stendur meðlimum til boða á síðunni minni. Meðlimum stendur ýmislegt annað til boða en meðlimagjaldið er notað til þess að standa straum af útgjöldum í kringum þessa þjónustu. Það að gerast meðlimur kostar 5000 krónur á mann á ári.

Dæmi um kennslugögn sem standa meðlimum til boða

Golf hvað er nú það

Fagmannlegur Undirbuningur

Teygja - Snúa - Skvetta  kennsluefni

bottom of page